25.02.2023
Jafnréttisverðlaun og ársþing KSÍ
Laugardaginn 25. febrúar, var 77. ársþing KSÍ haldið. Tveimur fulltrúum HKK var boðið að sitja þingið sem við að sjálfsögðu þáðum. Fulltrúar HKK fluttu þar ávarp og tóku til máls í umfjöllunum um viðfangsefni sem standa okkur nærri.
Á þessum degi fögnuðum við því einnig að ár er liðið frá endurvakningu hagsmunasamtakanna. Þetta ár hefur verið virkilega viðburðaríkt, krefjandi og lærdómsríkt. Við viljum nýta tækifærið og þakka öllum sem hafa lagt okkur lið, stutt okkur, mætt á viðburðina okkar og tekið þátt í umræðunni með okkur.
Síðast en ekki síst þykir okkur vænt um að segja ykkur frá því að í síðustu viku hlutum við jafnréttisverðlaun KSÍ fyrir árið 2022. Það er mikill heiður og viðurkenning á okkar starfi og veitir okkur byr undir báða vængi fyrir komandi verkefni.
Við erum rétt að byrja og hlökkum til næsta starfsárs Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna.
25.02.2023
HKK fær rétt til þingsetu á ársþingi KSÍ með tillögurétt og málfrelsi
Laugardaginn 25. febrúar var 77. ársþing KSÍ haldið. Tveimur fulltrúum HKK var boðið að sitja þingið. Þar fluttum við ávarp og fengum leyfi þingfulltrúa til að taka til máls í umfjöllunum um nokkur þingskjöl.
Við tókum fyrst til máls þegar við óskuðum eftir því að gerð yrði breytingartillaga á þingskjali 7, um stjórnskipulag, að HKK yrði þar bætt við á lista yfir þau félög og samtök sem hafa rétt til þingsetu á ársþingi KSÍ og hafi þar tillögurétt og málfrelsi. Þingheimur brást við þeirri beiðni og lagði tillöguna fram og var hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta og var einungis einn aðili sem kaus gegn tillögunni.
Við erum afskaplega þakklátar því trausti sem þingfulltrúar sýna okkur og hlökkum til alls samstarfs. Með þessu er okkur sýnd mikil virðing sem samtök og er ljóst að aðildarfélög innan KSÍ eru tilbúin til samstarfs í átt að frekara jafnrétti.
Einnig erum við virkilega þakklátar því að nær allir þingfulltrúar höfnuðu tillögu ÍTF um að leyfisreglugerð KSÍ gangi aldrei lengra en reglugerð UEFA, en við tókum einnig til máls í umræðu um þá tillögu, þar sem við undirstrikuðum hversu mikil neikvæð áhrif sú breyting myndi hafa á framþróun kynjajafnréttis innan knattspyrnuhreyfingarinnar, yrði hún samþykkt.
Við í stjórn HKK förum fullar sjálfstrausts og gríðarlega spenntar inn í næstu mánuði eftir þessar niðurstöður og mörg góð samtöl af ársþinginu.
23.02.2023
Ársþing KSÍ og athugasemdir HKK
Stjórn HKK sendi opinberlega frá sér athugasemdir við 77. ársþing KSÍ sem var haldið laugardaginn 25. febrúar. Athugasemdirnar voru varðandi þingskjal 16, sem lá fyrir þingið og snéri að jafnrétti og áframhaldandi framþróun íslenskrar knattspyrnuhreyfingar.
Tillagan hljóðaði svona:
Ársþing KSÍ samþykkir að leyfisreglugerð KSÍ gangi aldrei lengra varðandi kröfur á aðildarfélög heldur en leyfisreglugerð UEFA gerir ráð fyrir hverju sinni.
Með athugasemdunum vildum við benda á að með því að samþykkja þessi tillögu værum við ekki einungis að minnka sjálfstæði íslenskrar knattspyrnu heldur einnig setja óþarfa hindrum fyrir framþróun og eflingu knattspyrnu kvenna á Íslandi.
Tillagan var að endingu felld með miklum meirihluta.
19.01.2023
Ný stjórn og mikilvægar umræður um viðhorf, menningu og fjármagn
Fimmtudaginn 19. janúar fór fram aðalfundar félagsins í framhaldi af góðum umræðum á málstofu um viðhorf, menningu og fjármagn.
Tvær breytingar urðu á stjórn þar sem Ingunn Haraldsdóttir og Katrín Ómarsdóttir fara úr stjórn og við þökkum þeim kærlega fyrir þeirra framlag. Inn í þeirra stað koma Rebekka Sverrisdóttir og Laufey Björnsdóttir og bjóðum við þær velkomnar inn í stjórn.
Núverandi stjórn er því skipuð eftirfarandi aðilum.
Anna Þorsteinsdóttir - forseti
Meðstjórnendur
Auður Sólrún Ólafsdóttir
Lára Hafliðadóttir
Ragna Björg Einarsdóttir
Rebekka Sverrisdóttir - varaforseti
Varastjórn
Laufey Björnsdóttir
Lilja Dögg Valþórsdóttir - ritari
Rakel Logadóttir
19.01.2023
Málstofa og aðalfundur
Hvar stöndum við og hvernig komumst við áfram? Viðhorf, menning og fjármögnun í knattspyrnu kvenna
Fimmtudaginn 19. janúar 2023 hélt HKK málstofu. Málstofan var tvískipt. Í fyrri hlutanum var fjallað um viðhorf og menningu innan fótboltasamfélagsins sem annars vegar stuðlar að og hins vegar stendur í vegi fyrir kynjajafnrétti. Í seinni hlutanum var rætt um fjármögnun innan hreyfingarinnar og hvernig við getum elft fjárhagslega undirstöðu knattspyrnu kvenna á Íslandi. Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor við kynjafræði við HÍ, og Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdarstjóri Creditinfo, héldu erindi.
Umræðuhópar voru haldnir eftir hvort erindi fyrir sig þar sem umræðupunktar voru teknir saman og mun stjórn HKK nýta sér það sem þar kom fram í áframhaldandi vinnu í þessum málum.
Í framhaldi af málstofunni var haldinn fyrsti aðalfundur Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna eftir endurstofnun samtakanna í janúar 2022. Þar var, meðal annars, farið yfir skýrslu stjórnar um fyrsta starfsárið, ársreikningur og fjárhagsáætlun kynnt, og kosið í stórn fyrir næsta starfsár
27.10.2022
Framtíðin er kvenna en við erum hinsvegar föst í núinu
Fimmtudaginn 27. október 2022 var haldin málstofan Framtíðin er kvenna en við erum hins vegar föst í núinu. Málstofan var haldin á vegum Hagsmunasamtaka kvenna í knattspyrnu og nefnd samtakanna um samfélagslega ábyrgð. Málstofan ræddi og fjallaði um mikilvægi þess að fá fleiri konur í stjórnir íþróttafélaga.
Málstofan tók á mismunandi þáttum sem snúa að konum í stjórnum íþróttafélaga:
👉 Afhverju eru konur í miklum minnihluta stjórna í knattspyrnudeildum á Íslandi?
👉 Hvernig er hægt að breyta því?
👉 Hvað þurfa margar konur að vera í stjórn til að hafa áhrif?
Hér að neðan er kækja á upptöku á málstofuna sem við héldum í Veröld Vigdísar í október 2022. Við viljum þakka KSÍ sem sáum upptökuna á fundinum.
Framtíðin er kvenna en við erum hinsvegar föst í núinu (upptaka)
09.03.2022
Fyrsti fundur nýrrar stjórnar HKK
Ný stjórn HKK fundaði í fyrsta skipti 9. mars, síðast liðinn. Fyrsta mál á dagskrá var að ákveða varaforseta, gjaldkera og ritara. Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Katrín Ómarsdóttir er varaforesti, Ingunn Haraldsdóttir er gjaldkeri og Lilja Valþórsdóttir er ritari.
Rætt var um að virkja öll þau sem hafa sýnt starfinu áhuga. Fjöldi fólks hefur nú þegar boðið fram aðstoð sína í gegnum skráningarblaðið okkar. Við viljum biðja öll þau sem hafa áhuga að skrá sig í nefndir að gera það í gegnum skráningarblað.
27.02.2022
„Ekki eðlilegt að minna sé borgað fyrir að dæma kvennaleiki frekar en karlaleiki“
Vísir fjallaði um enduvakningu Hagsmunasamtaka Knattspyrnukvenna sem fór fram í Iðnó 25. febrúar 2022. Anna Þorsteinsdóttir, nýkjörinn forseti hagsmunasamtakanna, fór yfir stöðuna, markmiðin, og verkefnin sem eru framundan.
21.02.2022
Það borgar sig að fjárfesta í knattspyrnukonum
Ingunn Haraldsdóttir skrifar pistil um hvernig fjárfesting í kvennaliðum knattspyrnunnar skilar sér í auknum sýnileika, áhuga, en ekki síst auknum árangri. Ójöfnuður í knattspyrnuheiminum er enn til staðar hér á landi. Er möguleiki á að þessi ójöfnuður sé að aftra frekari framþróun kvennaboltans hér á landi?
19.02.2022
Heimavöllurinn: Kemur alltaf einhver kona til að hleypa vindlareyknum út
Heimavöllurinn fjallaði um Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna þegar Ingunn Haraldsdóttir og Katrín Ómarsdóttir mættu í þáttinn. Heimavöllurinn hefur haft mikil áhrif á aukna umfjöllun um konur í knattspyrnu síðustu ár.
13.02. 2022
Er eitt stig af karlrembu í lagi?
Anna Þorsteinsdóttir vakti athygli á endurvakningu Hagsmunasamtaka Knattspyrnukvenna með pistli sínum sem birtist á Vísi. Anna fjallar um stofnun samtakanna árið 1990 og þau baráttumál sem voru þá brýnust en bendir á að þótt margt hafi áunnist í jafnréttisbaráttunni erum við að einhverju leyti að berjast fyrir sömu málum og þá.