Hvað eru Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna?


Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna eru samtök sem hafa það að markmiði að auka samstöðu, sýnileika, jafnrétti og virðingu kvenna innan íþróttarinnar. Samtökin eru hugsuð sem sameiningarafl í jafnréttisbaráttunni, jafnt innan knattspyrnufélaganna, sem og hreyfingarinnar.

Samtök þessi voru stofnuð árið 1990 en hafa ekki verið starfrækt síðustu ár. Þann 25. febrúar 2022 voru samtökin endurvakin og munu starfa með breyttu fyrirkomulagi en með sama grunn baráttumála, að bæta hag knattspyrnukvenna á Íslandi og auka jafnrétti.

Konur í knattspyrnu hafa fengið mikinn meðbyr víða um heim undanfarin misseri. Þar má nefna bætta umfjöllun og meiri sýnileika sem hefur í för með sér aukinn áhuga almennings. Erlendis sjáum við hvernig aukin fjárfesting í knattspyrnuliðum kvenna hefur stóraukið sýnileika og áhuga. Við fögnum þeim framförum en viljum gera enn betur og nýta meðbyrinn. Þrátt fyrir að umræðan sé komin af stað og sýnileiki knattspyrnukvenna sé að aukast hér á landi er margt sem betur má gera.

Enn hallar mjög á konur í stjórnunarstöðum bæði innan félaganna og eins KSÍ. Við vitum að nóg er til af frambærilegum konum sem hafa ástríðu fyrir íþróttinni. Við viljum hvetja til þátttöku þessara kvenna og styðja þeirra störf innan félaganna. Fjölmargir einstaklingar sem starfa í félögunum vilja aukið jafnrétti en svo virðist sem þörf sé á utanaðkomandi stuðningi til að sú umræða fái hljómgrunn. Það er okkar von að samtökin vinni sem þrýstiafl þessum breytingum til stuðnings og geti þannig auðveldað og hvatt lið til að taka fleiri skref í átt að jafnrétti.

Samtökin eru hugsuð fyrir öll sem vilja taka þátt í jafnréttisbaráttu innan knattspyrnuhreyfingarinnar og hagsmunahópurinn eru konur í knattspyrnu. Allar konur eiga að geta leitað til samtakanna og fengið stuðning og hjálp í jafnréttisbaráttu innan knattspyrnunnar.

Meginmarkmið fyrstu stjórnar eftir endurvakningu hagsmunasamtakanna er að búa til góðan grunn undir samtökin þannig að hægt verði að byggja upp öflugt starf samtakanna um ókomna tíð. Þar er lykilþáttur að byggja upp gott tengslanet allra þeirra sem vilja leggja knattspyrnukonum lið og auka jafnrétti í knattspyrnu. Við munum því leggja ríka áherslu á tengslamyndun með allskonar viðburðum og verkefnum sem auka samstöðu. Einnig þarf að byggja upp rekstur samtakanna af skynsemi og öryggi og mun stjórnin einbeita sér að því verkefni þetta árið.

Fyrsta starfsárið mun stjórnin nýta nefndarvinnu til þess að greina helstu veikleika og styrkleika ýmissa þátta knattspyrnunnar þegar kemur að jafnrétti og í framhaldi setja saman einhvers konar aðgerðaáætlun um þá þætti sem þarf að bæta.

Stjórnin hefur ákveðið að setja tvö mál sérstaklega í forgang þetta árið, en það eru málefni sem ítrekað hafa borist ábendingar um. Við viljum annars vegar leggja áherslu á að skoða allar hliðar dómaramála sem eru ætíð mikið í umræðunni og hins vegar beita okkur fyrir því að opna umræðuna um dreifingu fjármagns innan knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi.

Stjórnin mun að sjálfsögðu vinna að fleiri verkefnum en finnst mikilvægt að setja skýr markmið með áætlun til að þetta fyrsta ár skili tilsettum árangri.

Meginmarkmið fyrsta starfsárið eftir enduvakningu