Ársþing KSÍ og athugasemdir HKK

Sæl öll!

Laugardaginn 25. febrúar, verður haldið 77. ársþing KSÍ. Í tilefni þess langar okkur í stjórn Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna að koma eftirfarandi athugasemdum varðandi þingskjal 16, sem liggur fyrir þingið, á framfæri og snýr að jafnrétti og áframhaldandi framþróun íslenskrar knattspyrnuhreyfingar:

Tillagan hljóðar svona:
Ársþing KSÍ samþykkir að leyfisreglugerð KSÍ gangi aldrei lengra varðandi kröfur á aðildarfélög heldur en leyfisreglugerð UEFA gerir ráð fyrir hverju sinni
.

Þessu til stuðnings er vísað í nýlega samþykkt stjórnar KSÍ á leyfisreglugerð sem segir að lið í efstu deild karla skuli einnig senda til leiks lið í Íslandsmót í meistaraflokki kvenna.

Það er ljóst að ekki eru allir sammála um þessa reglugerðarbreytingu. En við í stjórn Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna viljum benda forsvarsfólki knattspyrnufélaganna á að kynna sér vel hvað annað þessi ályktun felur í sér. Stjórn KSÍ hefur sent frá sér athugasemdir varðandi þingsályktunartillöguna og segist leggjast gegn henni. Þar kemur fram að það sé mat stjórnar KSÍ að markmið þingsályktunartillögunnar gangi gegn því að leyfiskerfi KSÍ sé notað sem verkfæri sem miðar að bættu umhverfi íslenskrar knattspyrnu. Sem dæmi um kröfur sem hafa verið gerðar hér á landi umfram þær sem eru í leyfisreglugerð UEFA má nefna kröfur um menntunar þjálfara í efstu deild kvenna.

Við í stjórn HKK tökum í sama streng og teljum að með þessari ályktun sé gengið alltof langt í að hindra framþróun íslenskrar knattspyrnuhreyfingar. Við teljum ekki rétt að reglugerðir UEFA, sem stendur aftar KSÍ í jafnrétti, eigi að stýra vegferð íslenskrar knattspyrnuhreyfingar í átt að auknu jafnrétti. Við teljum að með því að samþykkja þessa ályktun þá séum við ekki einungis að minnka sjálfstæði íslenskrar knattspyrnu heldur einnig setja óþarfa hindrun fyrir framþróun og eflingu knattspyrnu kvenna á Íslandi. KSÍ og íslenska knattspyrnuhreyfingin á að vera leiðandi í breytingum í átt að auknu jafnrétti og eflingu knattspyrnu kvenna en ekki bíða eftir að UEFA taki löngu tímabær skref í átt að auknu jafnrétti.

baráttukveðjur,

stjórn HKK