Fyrsti fundur nýrrar stjórnar HKK

 

Ný stjórn HKK fundaði í fyrsta skipti 9. mars, síðast liðinn. Fyrsta mál á dagskrá var að ákveða varaforseta, gjaldkera og ritara. Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Katrín Ómarsdóttir er varaforesti, Ingunn Haraldsdóttir er gjaldkeri og Lilja Valþórsdóttir er ritari.

Ýmislegt var til umræðu á fundinum enda bíður stjórnar fjölbreytt, skemmtilegt og krefjandi verkefni; að koma samtökunum aftur á þann stað að þau skili tilætluðum árangri.

Rætt var um að virkja öll þau sem hafa sýnt starfinu áhuga. Fjöldi fólks hefur nú þegar boðið fram aðstoð sína í gegnum skráningarblaðið okkar. Við viljum biðja öll þau sem hafa áhuga að skrá sig í nefndir að gera það í gegnum skráningarblað.

Við munum leggja upp með að nefndir verði opnar öllum skráðum meðlimum samtakana. Hver nefnd mun kjósa tvo einstaklinga til að vera í forsvari, ásamt því að stjórn skipar tengilið úr stjórn fyrir hverja nefnd. Það skal tekið fram að siðanefnd verður öðruvísi þar sem við verðum að passa uppá trúnað og sérhæfð vinnubrögð, en við óskum samt sem áður eftir áhugasömum í siðanefnd.

Við gerum okkur grein fyrir að með þessu fyrirkomulagi gætu nefndirnar verið misstórar. Hinsvegar eru málefni nefndanna einnig mis víðþætt og því möguleiki á að innan ákveðinna nefnda verði undirhópar. Með þessu fyrirkomulagi teljum við að við náum að virkja sem flest og fá inn sem flest sjónarmið á þessu fyrsta starfsári eftir endurvakningu.

Til að byrja með leggjum við upp með eftirfarandi nefndir en munum breyta og bæta við eftir þörfum. Við stefnum líka á að stofna afmælisnefnd vegna 50 ára afmæli íslandsmótsins.

Nefndirnar eru; Fræðslunefnd, Laganefnd, Markaðsnefnd , Meistaraflokksnefnd, Nefnd um samfélagslega ábyrgð, Yngri flokka nefnd, Siðanefnd, Skemmtinefnd, U23 og Þjálfaranefnd.

Hægt er að kynna sér nefndirnar hér.

Að lokum vill stjórn koma á framfæri þökkum fyrir virkni á þessari facebook síðu hagsmunasamtakanna. Þær færslur sem þegar hafa birst hafa skilað árangri, gagnlegum umræðum og umfjöllun í fjölmiðlum. Stjórn tekur fyrir öll mál sem berast annað hvort í gegn um facebook síðuna eða tölvupóst og erum við þegar farin að skoða hvernig skal taka á ákveðnum málum sem okkur hafa borist. Við hvetjum áfram til opinnar, fræðandi og skemmtilegra umræðu hér á síðunni en á sama tíma hvetjum við einnig til að allar fyrirspurnir og ábendingar berist okkur í tölvupósti á knattspyrnukonur@gmail.com.