Í samstarfi við KSÍ

Í tilefni af því að úrslitakeppni Bestu deildar kvenna hefst þann 31.ágúst, standa HKK og KSÍ fyrir málþingi um þjálfun á konum í knattspyrnu, miðvikudaginn 28.ágúst.

Umfjöllunarefni málþingsins er þjálfun á knattspyrnukonum með tilliti til frammistöðu og heilsu leikmanna, með áherslu á álagsstýringu, líkamlegar kröfur, meiðsli, svefn, næringu og hugræna getu. Ræddar verða helstu áskoranir í þjálfun kvenna, stöðu rannsókna og mun á milli kynjanna, m.a. með tilliti til tíðahringsins.

Málþing fer fram í höfuðstöðvum KSÍ - Laugardalsvelli, á milli klukkan 17:00 – 19:00, 28.ágúst. Viðburðinum verður streymt og upptaka verður í boði eftir viðburðinn inni á facebook síðu HKK

Aðgangur er ókeypis, en sætaframboð er takmarkað. Nauðsynlegt er að skrá sig fyrirfram, hér í skráningarhlekknum: https://forms.gle/dbsf3MNyWFNPVnxJ8

Boðið verður upp á hressingu og er viðburðurinn opinn öllum áhugasömum um efnið. Sérstaklega eru leikmenn, þjálfarar og annað fagfólk, sem og stjórnarmeðlimir og starfsfólk félaganna hvatt til að mæta.

Dagskrá málþingsins:

  • Setning málþings: Sólrún Sigvaldadóttir. KSÍ A, yfirþjálfari yngri flokka Keflavík

  • Erindi 1: Lára Hafliðadóttir, MSc. íþróttavísindi og þjálfun, KSÍ-B, Fitnessþjálfari: Líkamlegar kröfur og munur á milli kynjanna, tíðahringurinn.

  • Erindi 2: Sólveig Þórarinsdóttir, Sjúkraþjálfari og doktorsnemi. Algengustu meiðsli og forvarnir.

  • Erindi 3: Birna Varðardóttir. MSc. íþróttanæringarfræði, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði. Næring og hlutfallslegur orkuskortur í íþróttum.

  • Erindi 4: Katrín Ýr Friðgeirsdóttir. MSc. íþróttavísindi og þjálfun, doktorsnemi. Svefn

  • Erindi 5: Grímur Gunnarsson. Sálfræðingur. Hugræn geta

Hlökkum til að sjá ykkur!

Málþing: Þjálfun kvenna í knattspyrnu

Málstofa og pallborðsumræður: Konur í þjálfun

KONUR Í ÞJÁLFUN

Fimmtudaginn 18. janúar 2024 verður málstofa haldin á vegum Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna. Málstofan verður í formi pallborðsumræðna og umræðuefnið er konur í þjálfun. Við fáum frábæran liðsauka í pallborðsumræðurnar. Adda Baldursdóttir, Lára Hafliðadóttir, Íris Björk Eysteinsdóttir og Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir mæta á pallborðið og svara spurningum um eigin reynslu sem þjálfarar.
Sif Atladóttir mun stýra pallborðsumræðum

Markmið málstofunnar er meðal annars að ræða tækifæri, áskoranir og hindranir sem mæta konum í þjálfun. Hvað þarf til að fá fleiri konur í þjálfarastöður? Þarf eitthvað í umhverfinu og samfélginu að breytast? Eru tækifærin þau sömu?

Dagskrá málstofunnar:

18:15 - Húsið opnar
18:30 - Málstofan sett
- Kynning
- Pallborðsumræður
- Umræðuhópar
- Samantekt umræðuhópa
19:45 - Málstofu slitið

Við hvetjum öll til að mæta, hlusta og taka þátt í þessari mikilvægu umræðu.

Aðalfundur HKK hefst að lokinni málstofu, kl. 20:00.

Aðalfundur Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna

Aðalfundur HKK

Fimmtudaginn 18. janúar 2024 fer fram aðalfundur HKK. Fundurinn fer fram í húsnæði KSÍ. Formlegur aðalfundur hefst kl. 20:00 en fyrir aðalfundinn verður málstofa sem hefst kl. 18:30. Málstofan verður sérstaklega auglýst á heimasíðu samtakanna og á samfélagsmiðlum. Í ár mun málstofan taka fyrir umræðuefnið „Konur í þjálfun". Á milli viðburða verður boðið upp á veitingar.

Dagskrá aðalfundar:

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara

  • Skýrsla stjórnar

  • Reikningar lagðir fram til samþykktar

  • Lagabreytingar

  • Ákvörðun félagsgjalds

  • Kosning stjórnar

  • Önnur mál

Við óskum eftir því að félagar skrái sig í krækjunni hér til hliðar til að einfalda skipulagningu fundarins. Á eyðublaðinu er einnig hægt að bjóða sig fram til forseta, stjórnar, varastjórnar og í nefndir. Þau sem ekki geta mætt á fundinn geta einnig boðið sig fram.

Lagabreytingar og ályktanir þurfa að berast stjórn fyrir miðvikudaginn 10. janúar 2024 og öll fundargögn verða send út fimmtudaginn 11. janúar 2024.

Við hvetjum öll til að mæta og taka þátt í þessu mikilvægu starfi.

Starfshópur um kynjajafnrétti

Starfhópur stofnaður

Það er okkur mikið gleðiefni að segja ykkur frá því að starfshópur um kynjajafnrétti innan knattspyrnuhreyfingarinnar hefur verið skipaður af KSÍ. Stjórn HKK hafði óskað eftir því að slíkur starfshópur yrði stofnaður og vann með KSÍ, ráðuneyti jafnréttismála, og forsætiráðuneytinu að markmiðum verkefnisins. Fyrsti fundur starfshópsins fór fram 14. júní, 2023.

Markmið hópsins er að skoða stöðu kynjajafnréttis innan knattspyrnuhreyfingarinnar og leggja fram tillögur að mark­vissum aðgerðum til að auka kynjajafnrétti.

Í vinnu sinni mun starfshópurinn hafa til hliðsjónar skýrslu starfshóps Knattspyrnusambands Íslands, Heildarendurskoðun á Knattspyrnu kvenna, og eftirfylgni þeirra aðgerða sem ekki hafa komið til framkvæmda.

Afmörkun verkefnisins:

  • Viðhorf til kynja meðal allra flokk, þjálfara og stjórnenda, með það að markmiði að draga úr ómeðvitaðri kvenfyrirlitningu og fordómum

  • Aðstaða kynja meðal allra flokka, með það að markmiði að kynin hafi sem jafnasta aðstöðu

  • Skipting fjármagns til kynja meðal allra flokka, með það að markmiði að skipting fjármagns til kynja skýrist af málefnalegum þáttum

  • Jafnréttisáætlanir félaga og eftirfylgni þeirra, með það að markmiði að jafnréttisáætlunum sé fylgt og þjóni þar með tilgangi sínum.

Skýrsluna „Heildarendurskoðun á Knattspyrnu kvenna" má finna hér til hliðar

Kynjaþing Kvennréttindafélags Íslands

Kynjaþing 2023
Laugardaginn 13. maí fór fram Kynjaþing á vegum Kvennréttindafélags Íslands í Vigdísarstofnun. Hagmunasamtök Knattspyrnukvenna hlaut þann heiður að fá að vera með erindi á kynjaþinginu. Erindið hét “Kynjajafnrétti í íþróttum: Afhverju er mælirinn fullur hjá knattspyrnukonum?” Við í HKK fórum yfir stöðu kynjajafnréttis í knattspyrnusamfélaginu og vorum með pallborðsumræðu um mikilvægi baráttunar fyrir kynjajafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar.

Erindi og pallborðumræður

Anna Þorsteinsdóttir forseti Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna flutti erindið „Af hverju er mælirinn fullur hjá knattspyrnukonum?”. Þar fór hún yfir þær áskoranir sem HKK hefur tekist á við síðustu mánuði, hversu mikilvægt það er að takast á við þær að alvöru og hvaða áhrif kynjajafnrétti innan íþrótta hefur á samfélagið.

Kristrún Heimisdóttir, ein af stofnendum HKK fyrir 33 árum, stýrði pallborðsumræðu um mikilvægi kynjajafnréttis í íþróttum, þann árangur sem náðst hefur og veggina sem erfitt er að brjóta. Í pallborðinu voru:

  • Rebekka Sverrisdóttir varaforseti HKK og spilandi knattspyrnukona

  • Mist Rúnarsdóttir ein af stofnendum og stjórnendum hlaðvarpsins Heimavallarins,

  • Kristín Guðmundsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handbolta og núverandi þjálfari

  • Sigríður Elín Guðlaugsdóttir nýkjörinn formaður Fram fyrst kvenna.

Kynjaþingið var frábærlega vel heppnað og við viljum þakka Kvennréttindafélagi Íslands fyrir að leyfa okkur að taka þátt og hlökkum til áframhaldandi samvinnu við félagið. Erindið var tekið upp og hægt er að horfa á það í heild sinni með því að fylgja hlekknum hér til hliðar.

Fantasy deild Bestu deildar karla og yfirlýsingar ÍTF

Yfirlýsing ÍTF vegna auglýsingar
ÍTF sendi frá sér yfirlýsingu varðandi auglýsingu fyrir Bestu deildina. Við lítum á þessa yfirlýsingu sem svar til knattspyrnukvenna í Bestu deildinni því um er að ræða þeirra hagsmuni. Í yfirlýsingunni kemur fram að í öllu markaðsefni ÍTF er markmiðið að gera báðum kynjum jafn hátt undir höfði og að ÍTF muni bregðast við í komandi markaðsefni fyrir Bestu deildir karla og kvenna.

Vegna yfirlýsingar ÍTF varðandi Fantasy leik Bestu deildar karla

ÍTF hefur í kjölfarið sent frá sér aðra yfirlýsingu varðandi Fantasy leik Bestu deildar karla. Þar kemur fram að Fantasy leikurinn verði einungis í boði fyrir Bestu deild karla vegna þess að ekki séu í boði gögn til að setja á Fantasy leik fyrir Bestu deild kvenna. Gögnin koma frá Opta - Stats Perform sem er leiðandi á sviði íþróttagagna í heiminum. Þetta er annað árið í röð sem ekki er Fantasy leikur fyrir Bestu deild kvenna og seinustu daga höfum við verið að fá ábendingar um ýmsar leiðir sem hægt hefði verið að nýta til að halda úti fantasy leik fyrir báðar deildir. Við höfum því verið að óska eftir svörum frá bæði ÍTF og Opta varðandi þessi mál og þá sérstaklega hvers vegna gögnin eru ekki í boði fyrir Bestu deild kvenna. Einnig höfum við spurst fyrir um hvað þurfi að gerast til að Fantasy leikur fyrir báðar Bestu deildirnar geti orðið að veruleika.

Fantasy leikur eykur sýnileika og styrkir fyrirmyndir ungra knattspyrnuiðkenda

Fantasy leikur er frábær viðauki við markaðsefni Bestu deildarinnar og gerður til þess að auka áhuga á deildinni. Þetta stangast því verulega á við þau markmið ÍTF að gera báðum kynjum jafn hátt undir höfði í öllu markaðsefni. Það er mikilvægt að markmiðum ÍTF um jafnt vægi í markaðsmálum sé fylgt eftir í verki. ÍTF er áhrifavaldur þegar kemur að viðhorfi til knattspyrnu kvenna og tækifærin eru mörg þegar kemur að því að auka aðgengi og eftirspurn leikmanna.

Hvaða skilaboð eru það til ungra iðkenda að geta ekki haft leikmenn Bestu deildar kvenna í fantasy liðinu sínu?

Auglýsing ÍTF fyrir Bestu deildina

Besta deildin Season 2

Á sama tíma og við viljum hrósa Hannesi og markaðsdeild Íslensks Toppfótbolta (ÍTF) fyrir flotta auglýsingu sem frumsýnd var nú í vikunni, getum við í stjórn Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna (HKK) ekki setið á okkur með alvarlega gagnrýni á kynjahlutföll í auglýsingunni.

Í auglýsingu Bestu Deildarinnar í fyrra voru stigin stór skref í átt að jöfnu kynjahlutfalli en auglýsingin í ár er því miður alvarleg þróun aftur til fortíðar.

Þegar stjórn HKK sá auglýsinguna í fyrsta skipti þá var upplifunin vonbrigði. Við héldum í vonina um að ÍTF hefði ákveðið að gera tvær auglýsingar þetta árið og að seinni auglýsingin yrði kynnt í vikunni áður en konurnar hefja leik í Bestu Deildinni, og að þar yrðu konurnar í aðalhlutverki. Það hefði hins vegar verið stefnubreyting hjá ÍTF sem hefur lýst yfir vilja fyrir því að markaðssetja Bestu Deildina sem eitt vörumerki óháð kynjum. Stjórn HKK sendi því tölvupóst á ÍTF og óskaði eftir svörum en því miður voru svörin ekki viðunandi. ÍTF fær hins vegar tækifæri til að að svara opinberlega fyrir þessi atriði sem sett er út á og því ekki farið nánar út í þau samskipti hér.

Okkur til rökstuðnings höfum við tekið auglýsinguna og greint hana mjög ítarlega, sekúndu fyrir sekúndu, og eru niðurstöðurnar vægast sagt sláandi, en þær má sjá nánar á myndinni hér neðar. Að okkar mati er mjög margt alvarlegt við þessa niðurstöðu en fyrst og fremst teljum við að ÍTF hafi brugðist.

  • Stjórn ÍTF fellur hér á mikilvægu prófi um jafnréttissjónarmið. Það er hlutverk ÍTF að markaðssetja og þjónusta bæði kvenna og karla deildirnar. Það að þau hafi ekki gert athugasemdir við kynjahlutfall í endanlegri útgáfu þessarar auglýsingar er alvarlegt og enn alvarlegra ef þau hafi ekki tekið eftir því hvað hallar á konur í auglýsingunni.

  • Það er hlutverk stjórnar ÍTF að setja kröfur á þann sem framkvæmir verkið að passa kynjahlutföllin og stuðla almennt að fjölbreytileika. Við veltum fyrir okkur hvort þessi sjónarmið hafi verið skýr í samningagerð um þetta verkefni.

Af hverju skiptir þetta máli?

Við hljótum öll, árið 2023, að átta okkur á hvaða áhrif auglýsingar hafa og sérstaklega auglýsingar með fyrirmyndum og hetjum íslenskra barna og unglinga. Þessi auglýsing verður fyrir augum allra og dregur að sér áhorfendur enda auglýsingin að mörgu leyti vel gerð og leikstjórinn sérstaklega góður í að mynda stemningu í sínum verkum. Það á því ekki að þurfa að útskýra hversu mikil áhrif þessi auglýsing hefur á ungt fólk og almennt viðhorf hjá áhugafólki um knattspyrnu.

Fjölmiðlar falla líka á jafnréttisprófinu

Okkur þykir einnig mjög alvarlegt að nú, þremur dögum eftir birtingu auglýsingarinnar, hefur enginn íslenskur fjölmiðill sem fjallar almennt um knattspyrnu og/eða íþróttir gert athugasemd við kynjahlutfallið í auglýsingunni, heldur hafa flestir fjölmiðlar fjallað um hversu góð og vel unnin þessi auglýsing er án allrar gagnrýni. Leikstjóri myndbandsins hefur verið tekinn í ítarleg viðtöl þar sem ítrekað hafa borist tækifæri til að spyrja um þetta.

Við getum því ekki annað en lýst áhyggjum okkar yfir því að svo virðist sem að ríkjandi viðhorf þeirra sem fylgjast með, vinna innan eða tengt knattspyrnu á Íslandi, sjái ekkert athugavert við kynjahlutföllin í þessari gríðalega mikilvægu auglýsingu sem endurspeglar því miður viðhorfið til knattspyrnukvenna.

Á kökuritinu hér að ofan má sjá að hlutfall kvk leikmanna og/eða þjálfara, þ.e. tengt liðum Bestu Deildarinnar, í auglýsingunni er einungis 12%. Atriði þar sem bæði kvk og kk leikmönnum bregður fyrir eru 7%. Þegar það er lagt saman má sjá að öll atriði sem innihalda konur, hvort sem um ræðir atriði með kvk eingöngu eða kk og kvk saman, telur tæp 19% af allri auglýsingunni.

Ef þessi hlutföll eru fegruð eins og hægt er, og þetta “annað” af kökuritinu er tekið út og þar með einungis horft á þann hluta auglýsingarinnar sem inniheldur leikmenn, þjálfara eða stjórnarmenn, breytast hlutföllinn á þann veg að atriði með konum eru einungis 17% og öll atriði sem innihalda konur, hvort sem þær eru einar eða með körlum, er rétt tæp 28%, eins og sjá má nánar í töflunni:

Hlutfall kvk (blandað með KK) af heildarlengd auglýsingar: 18.74%
Hlutfall kvk (blandað með KK) af hluta með leikmönnum: 27.98%
Hlutfall kvk eingöngu af heildarlengd auglýsingar: 11.40%
Hlutfall kvk eingöngu af hluta með leikmönnum: 17.03%

Við teljum þessa gagnrýni vera mikilvæga í allri umræðu um jafnrétti innan íslenskrar knattspyrnu. Við viljum með þessu benda á það sem betur má fara og vonum að þetta hvetji til gagnrýnni hugsunar og hærri krafa þegar kemur að málum er varða kynjajafnrétti.

baráttukveðjur,

stjórn Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna

Jafnréttisverðlaun og ársþing KSÍ

Í gær, 25. febrúar, var 77. ársþing KSÍ haldið. Tveimur fulltrúum HKK var boðið að sitja þingið sem við að sjálfsögðu þáðum. Fulltrúar HKK fluttu þar ávarp og tóku til máls í umfjöllunum um viðfangsefni sem standa okkur nærri.

Í gær fögnuðum við því einnig að ár er liðið frá endurvakningu hagsmunasamtakanna. Þetta ár hefur verið virkilega viðburðaríkt, krefjandi og lærdómsríkt. Við viljum nýta tækifærið og þakka öllum sem hafa lagt okkur lið, stutt okkur, mætt á viðburðina okkar og tekið þátt í umræðunni með okkur.

Síðast en ekki síst þykir okkur vænt um að segja ykkur frá því að í síðustu viku hlutum við jafnréttisverðlaun KSÍ fyrir árið 2022. Það er mikill heiður og viðurkenning á okkar starfi og veitir okkur byr undir báða vængi fyrir komandi verkefni.

Við erum rétt að byrja og hlökkum til næsta starfsárs Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna!

 

Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna vilja auka samstöðu, sýnileika, jafnrétti og virðingu kvenna innan íþróttarinnar. Rík áhersla er lögð á tengslamyndun og uppbyggingingu samtakanna fyrsta starfsárið.

Samtökin eru hugsuð fyrir öll þau sem vilja taka þátt í jafnréttisbaráttu innan knattspyrnuhreyfingarinnar og eiga allir meðlimir samtakanna að geta leitað til okkar og fengið stuðning og hjálp í sinni jafnréttisbaráttu. Hagsmunahópurinn eru konur í knattspyrnu.

Við viljum hvetja öll til að senda okkur ábendingar um það sem er vel gert og það sem má fara betur. Það er mikilvægt fyrir samtökin að fá sem mest af upplýsingum svo við getum unnið markvist að bættum hag knattspyrnukvenna.

Instagram @knattspyrnukonur